Margrét og Rikharð Atli fimleikamenn ársins

Margrét Lúðvígsdóttir og Rikharð Atli Oddsson voru útnefnd fimleikakona og fimleikakarl ársins 2015 á jólasýningu fimleikadeildar Umf. Selfoss siðastliðinn laugardag.

Þau hafa bæði stundað fimleika frá unga aldri, eru metnaðarfull í æfingum og sífellt að bæta við sig í færni og þekkingu. Þau eru bæði í meistaraflokki fimleikadeildarinnar sem hlaut í vor Íslandsmeistaratitil, bikarmeistara- og deildarmeistaratitil.

Margrét og Rikharð Atli eru bæði lykilmenn í liðinu og taka þátt á öllum áhöldum. Þau kepptu bæði með liðinu á Norðurlandamótinu nú í haust og sýndu þar mikla hæfni.

Margrét keppti einnig með unglingalandsliði Íslands á Evrópumótinu árið 2012 og hlaut gullverðlaun með liði sínu.

Bæði stefna þau á að komast í landslið Íslands fyrir Evrópumót fullorðinna sem haldið verður í október á næsta ári.

Fyrri greinNýr Goðasteinn kominn út
Næsta greinNýr geisladiskur með sálmum sr. Valdimars