Margir hlupu Grýlupottahlaup

Frábær þátttaka var í fyrsta Grýlupottahlaupi ársins á Selfossi í morgun en þetta er í 42. sinn sem hlaupið er haldið.

Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss stóð fyrir fyrsta Grýlupottahlaupinu árið 1969 og hefur það verið hlaupið síðan með svipuðu sniði. Hlaupið er sex laugardaga í röð og er hlaupalengdin u.þ.b. 800 metrar.

Þegar hlaupinu er lokið er tekinn saman árangur en til að fá skráðan árangur og fá viðurkenningu þarf að ljúka fjórum hlaupum. Í lok allra hlaupanna eru þeim sem hafa lokið fjórum hlaupum eða fleirum veittar viðurkenningar og þá fyrir besta einstaka árangur og samanlagðan úr fjórum hlaupum, í hverjum aldursflokki.

“Allt frá upphafi hefur verið haldin skrá yfir besta hlaupatíma í einstökum aldursflokki. Þar má sjá að margt af okkar afreksfólki í íþróttum hóf sinn feril á því að taka þátt í hlaupinu,” sagði Helgi S. Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildarinnar, í samtali við sunnlenska.is. “Í dag tóku 117 hlauparar þátt í hlaupinu en þeir hafa ekki verið svona margir í fyrsta hlaupinu í mörg ár,” sagði Helgi.