Margar metlyftur á haustmóti

Erika Mjöll Jónsdóttir kom sterk inn eftir fjögurra ára keppnispásu. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands

Haustmót Lyftingasambands Íslands var haldið í húsnæði Crossfit XY í Garðabæ síðastliðinn laugardag. Níu Sunnlendingar kepptu á mótinu og náðu góðum árangri.

Guðbjörg Valdimarsdóttir, Hengli, varð í 3. sæti í kvennaflokki með 212,4 Sinclair stig. Þetta var þriðja mót Guðbjargar en hún keppti í -76 kg flokki kvenna og tók 76 kg í snörun og 100 kg í jafnhendingu sem skilaði henni 176 kg í samanlögðum árangri. Bætti Guðbjörg samanlagðan árangur sinn um 20 kg frá því á Íslandsmeistaramóti Senior í mars síðastliðnum.

Erika Mjöll Jónsdóttir, Hengli, kom sterk inn eftir fjögurra ára keppnispásu og gerði sér lítið fyrir og setti þrjú Íslandsmet á mótinu í -87 kg flokki kvenna U23. Hún snaraði 79 kg, lyfti 100 kg í jafnhendingu og 179 kg í samanlögðu.

Bjarki Breiðfjörð Björnsson, Umf. Selfoss, setti nýtt met í snörun í 73 kg flokki pilta U20 með 102 kg. Hann reyndi einnig við annað Íslandsmeti í U20 sem voru 120 kg í jafnhendingu, en hafði það ekki og það hlýtur að vera næsta markmið að ná þeirri þyngd.

Þá setti Bergrós Björnsdóttir, Umf. Selfoss, met í 71 kg flokki meyja U15 með 91 kg í jafnhendingu. Bergrós er aðeins 14 ára gömul og langyngsti keppandinn á mótinu. Hún bætti samanlagðan árangur sinn um 26 kg með 75 kg í snörun og 91 kg í jafnhendingu og 166 kg í samanlögðum árangri.

Guðbjörg Valdimarsdóttir (lengst t.v.) á verðlaunapalli ásamt þeim Hjördísi Ósk Óskarsdóttur og Írisi Rut Jónsdóttur. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands
Bjarki Breiðfjörð Björnsson. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands
Bergrós Björnsdóttir. Ljósmynd/Lyftingasamband Íslands
Fyrri greinTvö heimili verðlaunuð fyrir snyrtilegt umhverfi
Næsta greinAppelsínugul veðurviðvörun í gildi