Marckese í markið á Selfossi 

Kaylan Marckese skrifar undir samninginn við Selfoss. Ljósmynd/UMFS

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska markvörðinn Kaylan Marckese og mun hún leika með bikarmeisturunum á komandi sumri.

Marckese er 22 ára gömul og lék með öflugu liði University of Florida í háskólaboltanum 2015-2018, þar sem hún spilaði 78 leiki og hélt hreinu í 29 þeirra, sem er skólamet.

Að loknu námi tók hún þátt í nýliðavali bandarísku atvinnumannadeildarinnar og var valin 29. í röðinni af Sky Blue FC. Hún var varamarkvörður liðsins á síðasta tímabili.

Marckese á að baki landsleiki fyrir U18, U19 og U23 ára lið Bandaríkjanna.

„Við erum búin að skoða markvarðarmálin vel og erum mjög spennt fyrir því að fá Kaylan til okkar. Hún hefur góðan skilning á leiknum, er snögg á línunni með öruggar hendur og góðar sendingar. Hún á örugglega eftir að falla vel inn í hópinn hjá okkur,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Fyrri greinTOHOKU – með augum japanskra ljósmyndara
Næsta greinSelfoss tapaði í framlengingu