Máni með tvö í sigri Hamars

Máni Snær Benediktsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar hóf leik í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið heimsótti RB í Reykjaneshöllina í hörkuleik.

Máni Snær Benediktsson kom Hamri yfir á 13. mínútu en RB jafnaði fimm mínútum síðar. Máni Snær var aftur á ferðinni á 44. mínútu en RB menn kvittuðu fyrir það strax í næstu sókn og staðan í hálfleik var 2-2.

Seinni hálfleikurinn var markalaus allt þar til á 79. mínútu að Sigurður Ísak Ævarsson skoraði sigurmark Hamars. Hvergerðingar luku síðan leik manni fleiri því einn leikmanna RB fékk að líta rauða spjaldið mínútu fyrir leikslok.

Ýmir, Árborg, Hamar og Kría eru öll með 3 stig eftir 1. umferðina en liðin eiga öll innbyrðis leiki í næstu umferð. Þar ber hæst leik umferðarinnar, Suðurlandslag milli Hamars og Árborgar á Grýluvelli kl. 19:15 fimmtudaginn 16. maí.

Fyrri greinNýja borholan skilar vatni í vinnanlegu magni
Næsta greinStærsta lofthreinsistöð heims á Hellisheiði