Majkic til liðs við Selfoss

Majkic handsalar samninginn við Jón Steindór Sveinsson, formann deildarinnar. Með þeim á myndinni er Dean Martin, þjálfari Selfoss. Ljósmynd/Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss samdi í morgun við Danijel Majkic um að leika með liðinu í 2. deildinni í sumar. Danijel er 32 ára Bosníumaður.

Hann æfði með liðinu í vikunni og spilaði í 2-1 sigri á Ægi í æfingaleik í morgun.

„Fyrstu dagarnir voru sérstakir hér og tók það mig smá tíma að venjast breyttum aðstæðum en þetta verður bara betra með hverjum deginum,“ segir Danijel í tilkynningu á Facebooksíðu Selfoss.

Hann getur leyst nokkrar stöður á vellinum í vörn og á miðju. Danijel hefur komið víða við á sínum ferli og spilað í löndum eins og Svíþjóð, Rússlandi, Líbíu og í heimalandinu, Bosníu.

„Ég hef í raun bara heyrt góða hluti um landið og fólkið. Leikmennirnir, þjálfararnir og fólkið í kringum félagið hefur verið frábært hingað til. Svo hefur heimsbyggðin fengið að fylgjast með uppgangi íslenska boltans undanfarin ár svo að ég ákvað að stökkva til og prófa að spila á Íslandi,“ sagði Danijel að lokum.

Fyrri greinStórt tap í fyrsta leik í Lengjunni
Næsta greinAllir komnir með rafmagn aftur