Magnús Helgi með fjögur – KFR tapaði

Árborg vann stórsigur á Mána í 4. deild karla í knattspyrnu í dag en KFR tapaði fyrir Einherja í 3. deildinni.

Árborg heimsótti Ungmennafélagið Mána á Mánavöll á Hornafirði í dag. Þar var boðið upp á markaveislu að hætti Magnúsar Helga Sigurðssonar, en hann skoraði fjögur mörk fyrir Árborg í dag.

Tómas Hassing opnaði veisluna með marki á 12. mínútu og Magnús kom Árborg í 0-2 á 33. mínútu en Mánamenn minnkuðu muninn þremur mínútum síðar og staðan var 1-2 í hálfleik.

Árborgarar léku á alls oddi í síðari hálfleik. Magnús skoraði á 60. mínútu og Daníel Ingi Birgisson bætti fjórða markinu við á 69. mínútu. Hartmann Antonsson kom Árborg í 1-5 á 78. mínútu og Magnús kórónaði svo fernuna með tveimur mörkum með tveggja mínútna millibili undir lok leiks. Sigur Árborgara hefði getað verið stærri en Hartmann lét verja frá sér vítaspyrnu í lokin.

Árborg er í toppsæti A-riðils með 19 stig og hefur þriggja stiga forystu á ÍH.

Tvö rauð á Vopnafirði
KFR lagði upp í langferð til Vopnafjarðar og heimsótti þar Einherja í dag. Heimamenn skoruðu þrjú mörk á níu mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 3-0 í leikhléi.

Í upphafi síðari hálfleiks fékk leikmaður Einherja rauða spjaldið en Rangæingar voru manni fleiri í aðeins sautján mínútur því á 65. mínútu fékk Goran Jovanovski sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Hjalti Kristinsson minnkaði svo muninn fyrir KFR á 73. mínútu eftir klafs í vítateig Einherja og þar við sat.

KFR er nú í 7. sæti 3. deildarinnar með 10 stig og hefur aðeins náð í eitt stig í síðustu sex leikjum.

Fyrri greinSelurinn Dilla eltir starfsmennina á röndum
Næsta greinSnorri Þór tryggði sér titilinn