Magnaður sigur í Suðurlandsslag

Alexander Hrafnkelsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar höfðu betur í baráttunni um bergrisann þegar þeir tóku á móti ÍBV í Suðurlandsslag í úrvalsdeild karla í handbolta. Auðvitað var boðið upp á dramatík og Selfoss sigraði með einu marki, 31-30, eftir verulega kaflaskiptan leik.

ÍBV byrjaði betur og náði fljótlega þriggja marka forskoti. Selfyssingar voru ráðalausir í sókninni og gestirnir voru komnir með sex marka forskot, 9-15, þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Þá fór allt í skrúfuna hjá gestunum, þeir misstu tvo menn af velli og Selfoss skoraði fimm mörk í röð, 14-15 í hálfleik.

Áhlaup Selfyssinga hélt áfram í upphafi seinni hálfleiks og gestirnir áttu engin svör. Staðan var orðin 21-17 eftir tæpar tíu mínútur í seinni hálfleik. En Suðurlandsslagurinn er ávísun á spennu og lokakaflinn var mjög kaflaskiptur.

Eyjamenn jöfnuðu 23-23 þegar tólf mínútur voru eftir en Selfoss keyrði forystuna upp í fjögur mörk í kjölfarið. Aftur svöruðu gestirnir og jöfnuðu 30-30 á lokamínútunni. Selfoss hafði verið skrefinu á undan og þeir áttu lokasóknina þar sem Tryggvi Sigurberg Traustason tryggði þeim sætan sigur eftir gegnumbrot þegar sex sekúndur voru eftir.

Hákon Garri Gestsson og Hannes Höskuldsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk. Hákon Garri og Jónas Karl Gunnlaugsson voru öflugir í seinni hálfleiknum en Jónas skoraði 5 mörk í leiknum. Tryggvi Sigurberg Traustason, Árni Ísleifsson, Haukur Páll Hallgrímsson og Sölvi Svavarsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Álvaro Mallols, Elvar Elí Hallgrímsson, Gunnar Kári Bragason og Valdimar Örn Ingvarsson skoruðu allir 1 mark. Þeir tveir síðastnefndu áttu stórleik í hjarta Selfossvarnarinnar

Maður leiksins var hins vegar Alexander Hrafnkelsson sem varði 20/1 skot í marki Selfoss, auk þess að skora tvö mörk. Alexander varði vel allan leikinn og var með 38% markvörslu.

Selfoss fór með sigrinum upp í sjötta sæti þar sem liðið er með fimm stig. ÍBV er í þriðja sæti með sex stig.

Fyrri greinEinar býður sig fram til ritara Framsóknar
Næsta greinÁrborg – spennandi kostur fyrir öll