Magnaður endasprettur dugði ekki til

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn og Valur mættust í kvöld í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta að Hlíðarenda. Eftir gríðarlega sveiflukenndan leik hafði Valur sigur 102-95 og Íslandsmeistararnir sigruðu því 3-2 í einvíginu og mæta Tindastól í úrslitum.

Leikurinn fór hægt af stað í kvöld og allt var í járnum þar til um miðjan 2. leikhluta þegar Valur náði að búa til smá forskot og staðan var 54-44 í hálfleik.

Byrjunin í seinni hálfleik varð Þórsurum að falli í kvöld, Valur setti niður þrjár þriggja stiga körfur í röð og gerði 17-5 áhlaup sem breytti stöðunni í 71-49. Munurinn var um og yfir 20 stig allt þar til átta mínútur voru eftir og öll sund virtust lokuð fyrir Þórsara. Þá áttu þeir grænu magnaða endurkomu þar sem Fotios Lampropoulos og Davíð Arnar Ágústsson létu þristunum rigna og þegar rúmar tvær mínútur voru eftir var munurinn allt í einu orðin þrjú stig, 96-93. Þórsarar héldu hins vegar illa á spöðunum á lokamínútunum og skoruðu aðeins tvö stig á rúmlega tveggja mínútna kafla á meðan Valur lokaði leiknum nokkuð örugglega.

Þór lék án Jordan Semple í kvöld en gamli maðurinn Fotios Lampropoulos tók að sér að halda uppi sóknarleik liðsins á löngum köflum og endaði í 30 stigum. Vincent Shahid var sömuleiðis öflugur með 29 stig og 8 stoðsendingar.

Þórsarar eru því komnir í sumarfrí eftir heldur betur viðburðaríkt tímabil, sem hófst á fyrstu Evrópuleikjum félagsins. Liðið vann varla leik í deildinni fram að áramótum en átti frábæran endasprett og fór alla leið í oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins. Það er eitthvað.

Valur-Þór Þ. 102-95 (22-21, 32-23, 24-16, 24-35)
Tölfræði Þórs: Fotios Lampropoulos 30/6 fráköst, Vincent Shahid 29/8 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 14, Styrmir Snær Þrastarson 12/5 fráköst/8 stoðsendingar, Tómas Valur Þrastarson 7/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 3.

Fyrri greinHagnaður hjá Ölfusi og skuldaviðmið lækkar
Næsta greinSelfyssingar sigruðu á aldursflokkamóti HSK í sundi