Magnaðir Selfyssingar með Valsmenn upp við vegg

Sölvi Ólafsson var í ham í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar eru komnir í 2-0 í einvíginu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik. Selfoss sigraði 31-32 í leik tvö í kvöld og ekki þarf að taka fram að um æsispennandi skemmtun var að ræða.

Liðin mætast í þriðja sinn í Hleðsluhöllinni á Selfossi á mánudagskvöld kl. 19:30 og með sigri þar eru Selfyssingar komnir í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að gera áhlaup. Valur komst í 5-3 en Selfoss breytti þá stöðunni í 6-8. Valur jafnaði 8-8 og eftir það var jafnt á öllum tölum upp í 14-14 en Selfoss skoraði tvö mörk í röð á lokakaflanum og leiddi 15-16 í leikhléi.

Sveiflukenndur seinni hálfleikur
Selfoss náði þriggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en þá kom magnaður kafli hjá Valsmönnum sem skoruðu fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni í 19-18. Þá tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, leikhlé og náði að stilla sína menn af því þeir spiluðu vel í framhaldinu.

Sölvi Ólafsson átti góðan leik í marki Selfoss í kvöld og ákveðinn vendipunktur varð í leiknum þegar tíu mínútur voru eftir en þá varði Sölvi fjögur skot í röð, þar af eitt vítakast. Eftir það höfðu Selfyssingar frumkvæðið í leiknum og þó að Valsmenn hafi andað niður um hálsmálið á þeim á lokakaflanum voru þeir vínrauðu skrefinu á undan.

Sölvi í ham í markinu
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8/2 mörk, Haukur Þrastarson og Hergeir Grímsson skoruðu 6, Árni Steinn Steinþórsson 5, Alexander Egan 4, Guðni Ingvarsson 2 og Atli Ævar Ingólfsson 1. Sölvi Ólafsson varði 18/2 skot og var með 37% markvörslu.

Fyrri greinEgill bestur á Íslandi
Næsta greinBoltinn vildi ekki inn á lokakaflanum