„Magnað hvað bærinn sameinaðist“

Elvar Örn Jónsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Ég er ekkert að hugsa um framtíðina. Mér líður bara ofboðslega vel núna og lifi í núinu. Þetta var minn seinasti heimaleikur og að klára þetta með titli… þetta er bara draumurinn,“ sagði Elvar Örn Jónsson, sem átti stórleik fyrir Selfyssinga, þegar þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í kvöld.

Elvar mun leika með danska liðinu Skjern á næstu leiktíð, undir stjórn Patreks Jóhannessonar. Hann var lítið að hugsa um það í kvöld og fagnaði góðum árangri Selfoss innilega.

„Selfoss er búið að bíða eftir svona stórum titili síðan félagið var stofnað. Það er magnað hvað bærinn sameinaðist fyrir þennan leik, það voru allir vínrauðir. Það var frábært að finna fyrir þessum stuðningi. Hefðum við verið með fimmþúsund manna höll þá hefði hún verið full. Ég er viss um að allir Selfyssingar hefðu mætt,“ bætti Elvar við.

„Auðvitað fundum við fyrir pressunni úti í bæ en við setjum pressu á okkur sjálfir og við ætluðum að vinna þennan leik. Það vilja allir vinna titil. Við fögnum bara pressunni, sigurvegarar gera það og við gerðum það í dag.“

Leikurinn í kvöld var ólíkur fyrri leikjum í einvíginu að því leiti að Selfyssingar völtuðu yfir Hauka og sigruðu með tíu marka mun, 35-25.

„Við sýndum það í kvöld að við erum allir í gríðarlega góðu formi. Við keyrðum bara á þá í seinni hálfleiknum, við höfum stundum hætt að keyra í leikjum en í dag héldum við áfram. Við töluðum um það í hálfleik og áttum von á áhlaupi frá Haukunum. Við héldum bara í okkar prinsipp og kláruðum þetta bara,“ sagði Elvar ennfremur.

„Fyrir fjórum árum setti ég mér það markmið að vinna titil fyrir Selfoss. Við vorum nálægt því í fyrra að vinna allar keppnir og sömuleiðis í vetur, einhvern af þessum titlum. En ég er svo ánægður að það er sá stóri sem við unnum að lokum.“

 

Fyrri grein„Við eigum þetta svo sannarlega skilið“
Næsta greinÉg er Selfyssingur!