Magnaður sigur Selfyssinga

Selfyssingar unnu sinn fyrsta sigur í N1 deild karla í handbolta í vetur þegar þeir lögðu Val 32-30 í dramatískum leik á heimavelli.

Selfyssingar voru arfaslakir í fyrri hálfleik á meðan Valur spilaði góða vörn og nýtti sér mistök Selfyssinga til hins ítrasta. Staðan var 12-18 í hálfleik og ekkert útlit fyrir annað en öruggan sigur Vals.

Það breyttist heldur betur í síðari hálfleik því Selfyssingar komu skipulagi á varnarleikinn og við það fóru mörkin að koma úr hraðaupphlaupum. Selfoss náði að jafna leikinn, 26-26 þegar átta mínútur voru eftir af leiknum.

Eftir það var ekki aftur snúið. Stemmningin magnaðist innan vallar sem uppi í stúku og Selfyssingar áttu síðustu mínúturnar. Helgi Hlynsson kom í markið undir lokin og varði þrívegis vel og Gunnar Ingi Jónsson var grimmur með sleggjuna í hægra horninu á lokakaflanum.

Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, var ánægður með sína menn þó að illa hafi gengið í fyrri hálfleik. „Menn mæta yfirspenntir til leiks og vilja gera vel en svo fer að ganga illa og menn fyllast örvæntingu. Svo þegar menn fá hálfleikinn til að setjast niður og átta sig á því hvernig í hlutunum liggur þá er hægt að láta hlutina gerast,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 9/5 mörk, Atli Kristinsson skoraði 6, Guðjón Drengsson 5, Einar Héðinsson 3, Gunnar Jónsson 3, Eyþór Lárusson 2, Atli Einarsson 2, Ómar Helgason 1, Árni Steinþórsson 1.

Birkir Fannar Bragason varði 10 skot og Helgi Hlynsson 3.