Magdalena framlengir til þriggja ára

Miðjumaðurinn Magdalena Anna Reimus hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss, út tímabilið 2020.

Magdalena var í lykilhlutverki hjá Selfossliðinu í 1. deildinni á síðasta keppnistímabili þegar liðið tryggði sér aftur sæti í Pepsi-deildinni. Hún spilaði alla átján leiki Selfoss og var markahæsti leikmaður liðsins með tíu mörk.

Í lok tímabilsins fékk hún svo verðskuldaða viðurkenningu þegar þjálfarar og fyrirliðar liðanna í 1. deildinni kusu hana besta leikmann deildarinnar í kjöri Fótbolti.net.

„Það eru miklar ánægju fréttir að við fáum að vinna með Magdalenu áfram næstu þrjú árin. Hún er ógnandi og skemmtilegur leikmaður með Selfosshjartað á réttum stað. Hún er búin að reynast félaginu vel og heldur því örugglega áfram. Magdalena stóð sig mjög vel síðasta sumar og hefur alla burði til þess að bæta sig enn frekar sem leikmaður,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.

Fyrri grein„Mikil áskorun að taka við svona gamalgrónu bakaríi“
Næsta greinNaumur sigur Hamars á FSu