Magdalena áfram á Selfossi

Knattspyrnukonan Magdalena Anna Reimus hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til tveggja ára.

Magdalena, sem er 21 árs, kom til Selfoss frá Hetti á Egilsstöðum fyrir tímabilið 2015 og hefur síðan leikið 39 leiki fyrir liðið í deild og bikar og skorað í þeim níu mörk.

Kvennalið Selfoss féll niður um deild í lokaumferðinni í sumar og þrátt fyrir áhuga nokkurra liða úr Pepsi-deildinni ákvað Magdalena að halda tryggð við Selfoss og taka slaginn í 1. deildinni næsta sumar.

„Við erum virkilega ánægð með að Magdalena hafi framlengt samning sinn við Selfoss. Hún var lykilmaður á miðjunni hjá liðinu í sumar og verður lykilmaður hjá okkur á næsta tímabili í 1. deildinni. Eins og fleiri leikmenn okkar er hún með góða reynslu úr Pepsi-deildinni og getur miðlað henni til yngri leikmanna í liðinu,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss. „Magda er líka sterkur félagsmaður með gott hugarfar og gefur mikið af sér bæði innan vallar og utan.“