„Maður þarf víst stundum að bíta í það súra“

„Ef ég vissi hvað klikkaði hjá okkur í kvöld þá hefðum við sennilega unnið leikinn,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars, svekktur eftir tapið gegn FSu.

„Við byrjum rosalega vel en í kjölfarið keyra þeir upp hraðann í leiknum. Það voru kannski aðeins fúnir fæturnir á okkur, ekki það að ég ætli að fara að afsaka eitthvað. FSu átti bara stórleik í kvöld og leikmenn og þjálfarateymið á þeim bænum eiga bara mikið hrós skilið,“ sagði Hallgrímur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Það eru forréttindi að fá að taka þátt í svona einvígi, eins og umgjörðin á þessu hefur verið, en það setur auðvitað svartan blett á það fyrir mig að þurfa að tapa þessu. En maður þarf víst að bíta í það súra stundum.“

FSu hafði gott forskot í 4. leikhluta en þá tóku Hvergerðingar mikinn endasprett og minnkuðu forskotið það mikið að skólapiltarnir voru farnir að svitna rækilega.

„Þetta er alveg eins og í leik tvö. Allt í einu þegar menn hafa engu að tapa þá keyra þeir allt í gang. Ég er ekki að segja að menn hafi ekki verið að reyna fram að því. Skotin voru ekki að detta hjá okkur og þetta var fjandi erfitt fyrir okkur á mörgum sviðum í kvöld. Það er erfitt að spila þessa vörn sem við spilum þegar máttarstólparnir finna sig ekki, það dregur aðeins sjálfstraustið úr vörninni,“ bætti Hallgrímur við og var áfram óspar á hrósið í garð andstæðinganna. „Við vorum að reyna að taka Ara út úr leiknum hjá FSu en hann var frábær í kvöld. Hlynur steig rosalega vel upp og Collin spilaði óaðfinnanlega framan af leiknum.“

Samningur Hallgríms við Hamar er úti og hann segist ekki vita hvort hann þjálfi í Hveragerði eða annarsstaðar á næsta tímabili, en hann hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið félagsins í vetur. „Ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Samningurinn minn er úti og ég bíð bara spenntur við símann, hvort sem það er Lárus sem hringir eða einhver annar,“ sagði Hallgrímur léttur að lokum.

Fyrri grein„Við vorum mjög vel peppaðir“
Næsta greinFjölnir sendi Selfoss í sumarfrí