Lygileg endurkoma Þórsara

Nikolas Tomsick (5) skoraði 25 stig og Halldór Garðar Hermannsson (9) skoraði sigurkörfuna í blálokin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann svo ótrúlegan sigur á Tindastóli í oddaleik um sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld að það jaðrar við aprílgabbi.

Liðin mættust á Sauðárkróki og útlitið var ekki bjart hjá Þórsurum í hálfleik, staðan 52-35. Þór lenti mest 23 stigum undir í upphafi seinni hálfleiks, 58-35. Þá hrukku Þórsarar loksins í gang og jafnt og þétt unnu þeir niður forskot Stólanna.

Lokakaflinn var hrikalega spennandi og þegar mínúta var eftir var munurinn kominn niður í eitt stig, 90-89. Liðin skiptust á að skora í framhaldinu en Tindastóll var með pálmann í höndunum, einu stigi yfir þegar níu sekúndur voru eftir og á leið í sókn. Þórsarar stálu hins vegar boltanum og Halldór Garðar Hermannsson skoraði sigurkörfuna, 93-94, þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Algjörlega lygileg endurkoma – ekki bara í kvöld – því Þór lenti 0-2 undir í einvíginu en vann svo þrjá leiki í röð og tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins. Þar mæta Þórsarar KR og verður fyrsti leikurinn á heimavelli KR næstkomandi föstudag, þann 5. apríl.

Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 25/7 fráköst/8 stoðsendingar, Kinu Rochford 23/7 fráköst, Jaka Brodnik 15, Emil Karel Einarsson 12, Halldór Garðar Hermannsson 9/8 fráköst/6 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 8, Davíð Arnar Ágústsson 2/5 fráköst.

Leikirnir gegn KR í undanúrslitum:
Leikur 1 – 5. apríl KR-Þór Þ. kl. 19:15
Leikur 2 – 9. apríl Þór Þ.-KR kl. 19:15
Leikur 3 – 13. apríl KR-Þór Þ. kl. 20:00
Leikur 4 – 15. apríl Þór Þ.-KR Leiktími kemur síðar
Leikur 5 – 18. apríl KR-Þór Þ. Leiktími kemur síðar

Fyrri grein„Ætlum að skemmta okkur vel“
Næsta greinGrýlupottahlaupið 50 ára