„Lyftum hökunni upp og börðumst áfram“

Kvennalið Selfoss tapaði í átta marka leik þegar ÍBV kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 3-5.

„Við vorum alltof opnar í vörninni í fyrri hálfleik og gáfum þeim mikið pláss. En ég er ánægð með að við komum til baka í seinni hálfleik og sýndum hjarta. Við erum ekki búnar að skora mikið að undanförnu þannig að það er gott að fá þrjú mörk, en auðvitað eigum við að vinna þegar við skorum þrjú mörk,“ sagði Chanté Sandiford, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hún er nýtekin við fyrirliðabandinu í fjarveru Guðmundu Óladóttur, sem er meidd.

„Ég er mjög stolt að Valorie finnst ég vera leiðtogi innan vallar og ég vil vera það áfram. Þó að við fáum á okkur fimm mörk í kvöld þá er það mitt hlutverk að fá liðið til að lyfta hökunni upp frá bringunni og fá það til að berjast áfram. Við gerðum það í kvöld og ég er stolt af liðinu,“ sagði Chanté ennfremur.

Leikurinn var jafn framan af en ÍBV komst yfir á 11. mínútu með marki frá Díönu Magnúsdóttur en Magdalena Reimus jafnaði fyrir Selfoss tíu mínútum síðar. ÍBV tók leikinn svo algjörlega yfir síðustu tuttugu mínútur fyrri hálfleiks og skoraði þrjú mörk, þar sem ekki stóð steinn yfir steini í vörn Selfoss.

Staðan var orðin 1-4 í hálfleik og fjörið hélt áfram á upphafsmínútum síðari hálfleiks, sem voru ótrúlegar. ÍBV skoraði eftir 40 sekúndur en 50 sekúndum síðar minnkaði varamaðurinn Eva Lind Elíasdóttir muninn með góðum marki, 2-5. Eva Lind var aftur á ferðinni á 52. mínútu en var þá felld innan vítateigs og dómarinn dæmdi víti. Magdalena fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Selfyssingar voru sterkari það sem eftir lifði síðari hálfleiks en tókst ekki að skapa afgerandi færi. Sigur Eyjakvenna var því nokkuð öruggur.

Það skyggði enn frekar á stemmninguna á Selfossi að Karitas Tómasdóttir, Heiðdís Sigurjónsdóttir og Anna María Friðgeirsdóttir fóru allar meiddar af velli í fyrri hálfleik og munar um minna hjá Selfossliðinu upp á framhaldið að gera, þar sem leikmannahópurinn er ekki stór og fleiri leikmenn eru meiddar.

Selfoss hefur nú 9 stig í 8. sæti deildarinnar. Er þremur stigum frá fallsæti og á framundan erfiða leiki gegn toppliðunum, Breiðabliki og Stjörnunni.

Fyrri greinFótbrotnaði við Landmannalaugar
Næsta greinReiðarslag fyrir Þorlákshöfn