Luis hetja Stokkseyringa

Luis Lucas var markahæstur á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stokkseyringar þurftu að hafa mikið fyrir því að leggja botnlið KFB sem kom í heimsókn á Stokkseyrarvöll í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Stokkseyringar höfðu mikla yfirburði í leiknum en voru klaufar upp við markið og nýttu sínar sóknir ákaflega illa.

Luis Lucas kom Stokkseyringum yfir á 10. mínútu með góðu marki en síðan leið og beið og hver sóknin af annarri rann út í sandinn. Staðan var 1-0 í hálfleik og ekki batnaði útlitið þegar gestirnir jöfnuðu um miðjan seinni hálfleikinn.

Stokkseyri reyndi allt hvað af tók að skora sigurmarkið og það var ekki fyrr en á lokamínútunni að Luis bætti við sínu öðru marki og reyndist það sigurmark leiksins. Lokatölur 2-1.

Lið Stokkseyrar er nú komið upp í 4. sæti B-riðilsins með 12 stig en KFB er á botninum og hefur ekki náð í stig í sumar.

Fyrri grein„Fólk hefur ekki hlustað á Hipsumhaps fyrr en það hefur mætt á tónleika“
Næsta greinNýtt hesthúsahverfi á Rangárbökkum