Loksins stig hjá Selfosskonum

Eftir fjóra tapleiki í Pepsi-deild kvenna í röð náðu Selfyssingar í heldur betur mikilvægt stig þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Breiðablik á útivelli í kvöld.

Fjölmargar breytingar voru á byrjunarliði Selfoss en fjórir sterkir leikmenn eru farnir utan til náms í Bandaríkjunum og þær Guðmunda Óladóttir, Heiðdís Sigurjónsdóttir og Alyssa Telang eru allar meiddar. Þær vínrauðu náðu þó að manna gott byrjunarlið þar sem þjálfarinn Valorie O’Brien og sóknarmaðurinn Sharla Passariello spiluðu meðal annars sinn fyrsta leik í sumar.

Breiðablik stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik og náði nokkrum sinnum að setja duglega pressu á Selfossliðið. Besta færi Blika var sláarskot á 19. mínútu en inn vildi boltinn ekki. Selfyssingar vörðust vel en lögðu minna kapp á sóknarleikinn.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Blikar sóttu nánast án afláts og undir lokin var sóknarþungi þeirra orðinn gríðarlegur. Selfyssingar börðust hins vegar eins og ljón fyrir stiginu og náðu að halda út gegn geysisterku sóknarliði þeirra grænu.

Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 10 stig og mætir toppliði Stjörnunnar í næstu umferð á útivelli þann 9. ágúst.