Loksins sigur

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór sigraði Stjörnuna á heimavelli í Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þetta var aðeins annar sigur Þórsara í tíu leikjum í vetur. Loksins sigur, en Þór er þó ennþá í fallsæti.

Það var boðið upp á blússandi sóknarbolta í kvöld, fyrsti leikhluti var jafn en að honum loknum settu Þórsarar í gírinn og leiddu 57-50 í hálfleik. Forskot Þórs jókst enn í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða kom 14-3 áhlaup frá heimamönnum sem gerði endanlega út um leikinn. Þór skoraði 41 stig í 4. leikhluta og sigraði, 128-104.

Vincent Shahid var langbesti maður vallarins, skoraði 41 stig og sendi 13 stoðsendingar. Styrmir Snær Þrastarson átti sömuleiðis stórleik með 26 stig og 9 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Þór er í 11. sæti með 4 stig en Stjarnan er í 7. sæti með 8 stig.

Tölfræði Þórs Þ: Vincent Shahid 41/13 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 26/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 19, Fotios Lampropoulos 16/11 fráköst, Pablo Hernandez 8/6 fráköst, Daníel Ágúst Halldórsson 6, Tómas Valur Þrastarson 6/7 fráköst, Arnór Bjarki Eyþórsson 6.

Fyrri greinNýtt viðvörunarkerfi og öryggismyndavélar í Reynisfjöru
Næsta greinFaðmaði Elínu Hirst í grænmetiskælinum