Loksins sigur hjá Selfyssingum – Hrunamenn töpuðu

Birkir Hrafn Eyþórsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu langþráðan sigur í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar Þór Akureyri kom í heimsókn í Gjánna. Hrunamenn heimsóttu KR í Frostaskjólið og töpuðu stórt.

Leikur Selfoss og Þórs var jafn í fyrri hálfleik en Þórsarar voru skrefinu á undan og leiddu í leikhléi, 41-49. Selfoss komst yfir, 58-56, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta og eftir það höfðu þeir góð tök á leiknum þó að Þór væri aldrei langt undan. Lokatölur urðu 89-84.

Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 34 stig, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 23 og þeir Ísar Jónasson og Vojtech Novák skoruðu báðir 11 stig en Novák tók 8 fráköst að auki og sendi 7 stoðsendingar. Svavar Ingi Stefánsson skoraði 6 stig og þeir Arnór Eyþórsson og Ebrima Jassey Demba skoruðu 2 stig en Demba tók 10 fráköst í leiknum.

Það var boðið upp á dúndrandi sóknarbolta í leik KR og Hrunamanna. KR-ingar voru sterkari frá upphafi en Hrunamenn áttu ágæta kafla í sókninni þó að vörnin hafi verið hriplek. Staðan var 58-34 í hálfleik en í seinni hálfleiknum röðuðu liðin niður stigunum og KR vann að lokum 122-86.

Aleksi Liukko var stigahæstur Hrunamanna með 21 stig og 18 fráköst. Sam Burt skoraði 20 stig og tók 8 fráköst, Símon Tómasson skoraði 15 stig og sendi 5 stoðsendingar og Arnar Dagur Daðason skoraði 11 stig.

Selfoss er í 9. sæti deildarinnar með 8 stig en Hrunamenn í 11. sæti með 4 stig.

Fyrri greinHellisheiði lokuð til vesturs
Næsta greinLeikurinn í öruggum höndum Hamars/Þórs