Loksins sigur hjá Selfyssingum

Susanna Friedrichs skoraði glæsilegt mark fyrir Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss vann langþráðan sigur í Bestu deildinni í knattspyrnu þegar Þór/KA kom í heimsókn á Selfoss í dag. Lokatölur urðu 2-0.

Selfoss komst yfir strax á 6. mínútu eftir gott spil sem lauk með skoti Bergrósar Ásgeirsdóttur að marki. Brenna Lovera kom svo á ferðinni og renndi boltanum yfir línuna af nokkurra sentimetra færi. Eftir markið datt leikurinn nokkuð niður. Selfoss var meira með boltann en færin voru ekki mörg.

Staðan var 1-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn fór rólega af stað. Þór/KA færði sig ofar á völlinn og Selfyssingar fundu fyrir pressunni. Á 74. mínútu átti Tiffany Sornpao frábæra markvörslu, sem reyndist mikill vendipunktur, því skömmu síðar spiluðu Selfyssingar sig aftur í gegnum Þórs/KAvörnina og Susanna Friedrichs hamraði boltann upp í markhornið eftir magnaða sókn og þar með var björninn unninn.

Eftir sigurinn sigla Selfyssingar lygnan sjó um miðja deild en stutt er í liðin fyrir ofan. Selfoss er í 6. sæti með 18 stig en Þór/KA í bullandi vandræðum í 8. sætinu með 10 stig.

Fyrri greinMönnunarvandinn á Krakkaborg leystur
Næsta greinMarkasúpa í lokaumferðinni