Loksins sigur hjá Selfossi

Selfyssingar unnu langþráðan sigur í N1-deild karla í handbolta í kvöld þegar liðið heimsótti HK, 24-27 Afturelding vann Hauka á sama tíma svo staðan á botninum er óbreytt.

Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 1-3 og 5-9. Sebastian Alexandersson þjálfari byrjaði í markinu hjá Selfoss og varði vel á upphafsmínútunum. Ragnar Jóhannsson fór líka mikinn í upphafi og skoraði fjögur af fyrstu sjö mörkunum.

Selfoss leiddi í hálfleik 9-13 en Sebastian varði 11 skot í fyrri hálfleik. Varnarleikur Selfoss var góður og í sókninni bar mest á Ragnari og Guðjóni Drengssyni.

Leikurinn snerist í upphafi seinni hálfleiks og það tók HK aðeins fimm mínútur að jafna, 13-13. HK komst í 17-15 en þá tóku Selfyssingar á rás og skoruðu þrjú mörk í röð til að komast yfir, 17-18. Selfyssingar létu forystuna ekki af hendi eftir það og sýndu mikla baráttu sem skilaði sanngjörnum sigri. Selfoss náði sex marka forskoti þegar fimm mínútur voru eftir, 19-25, en HK minnkaði muninn á lokakaflanum.

Guðjón Drengsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Milan Ivancev skoraði 7, Ragnar Jóhannsson 6 og þeir Atli Hjörvar Einarsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu báðir 2 mörk.

Á sama tíma vann Afturelding Hauka með einu marki, 25-24. Afturelding hefur því áfram tveggja stiga forskot á Selfoss sem situr á botninum með 6 stig.

Fyrri greinHvatagreiðslur hækka um milljón milli ára
Næsta greinÚtlitið svart hjá Hamri