Loksins sigur hjá KFR – Ægir tapaði

KFR vann sinn fyrsta sigur í 3. deild karla í knattspyrnu í dag þegar liðið heimsótti KFS til Vestmannaeyja. Ægir tapaði hins vegar á Grenivík.

Gunnar Bent Helgason skoraði bæði mörk KFR í 1-2 sigri, en hann kom til liðsins frá Njarðvík þegar félagaskiptaglugginn opnaði í gær. Það gerði einnig Goran Jovanovski sem gekk aftur í raðir KFR frá Ægi.

KFS komst yfir í leiknum á 21. mínútu en Gunnar jafnaði tíu mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik. Sigurmarkið leit svo dagsins ljós á 59. mínútu.

Þrátt fyrir sigurinn er KFR enn í 9. sæti 3. deildarinnar, fallsæti, með 4 stig.

Í 2. deildinni sótti Ægir Magna heim á Grenivík. Heimamenn voru mun sprækari í upphafi leiks og leiddu 3-0 eftir 23. mínútna leik. Þannig stóðu leikar í hálfleik, en Ægismenn hresstust nokkuð í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn í 3-2. Daniel Kuczynski og Acu Pandurevic skoruðu mörkin um miðjan hálfleikinn.

Magnaliðið var hins vegar sterkara á lokasprettinum en þeir bættu við tveimur mörkum, á 85. mínútu og á 5. mínútu uppbótartíma.

Lokatölur 5-2 og Ægir situr áfram í 11. sæti deildarinnar með 8 stig.