Loksins sigur hjá Hamri

Eftir átta leikja taphrinu landaði Hamar loks naumum sigri gegn Tindastóli í Iceland-Express deild karla í gærkvöldi, 83-81.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en þegar leið á leikinn höfðu Hamarsmenn frumkvæðið og þó að forskotið yrði aldrei meira en níu stig. Staðan var 49-45 í hálfleik.

Lokakaflinn var æsispennandi en síðustu þrjár mínúturnar skiptust liðin á að missa boltann í sókninni. Darri Hilmarsson kom Hamri í 83-81 úr tveimur vítaskotum þegar 56 sekúndur voru eftir. Tindastóll fékk þrjár tilraunir til að skora körfu en tókst ekki og Hamar fékk boltann þegar 15 sekúndur voru eftir. Sá tími dugði þeim til að missa boltann í hendur gestanna sem aftur misstu boltann úr höndunum um leið og leiktíminn rann út.

Með sigrinum lyftir Hamar sér upp um tvö sæti og úr fallsæti.

Devin Sweetney var stigahæstur Hamars með 38 stig. Stólarnir réðu ekkert við hann í fyrri hálfleik þar sem hann var óstöðvandi innan teigs og utan og skoraði 25 stig. Darri Hilmarsson skoraði 15 stig og var ískaldur á vítalínunni undir loki. Ragnar Nathanaelsson skoraði 9 stig og frákastaði vel auk þess sem hann varði mikilvæga bolta í leiknum. Kjartan Kárason skoraði 7 stig, Lárus Jónsson og Ellert Arnarson 6 og Bjarni Rúnar Lárusson 2.

Fyrri greinFjóla Signý Íslandsmeistari í fimmtarþraut
Næsta grein„Þetta léttir aðeins lundina“