Loksins sigur hjá Árborg

Árborg vann sinn fyrsta sigur í 4. deild karla í knattspyrnu í dag þegar liðið tók á móti Þrótti Vogum á gervigrasvellinum á Selfossi. Lokatölur urðu 2-1.

Leikurinn var rólegur framan af og fátt tíðinda fyrr en á 24. mínútu að Andri Orri Hreiðarsson átti góða sendingu úr öftustu línu fram á Magnús Helga Sigurðsson sem var fljótur að hugsa og renndi boltanum innfyrir. Þar kom Hartmann Antonsson á ferðinni og kláraði færið vel framhjá markverði Þróttar.

Þróttarar voru meira með boltann eftir að Árborg komst yfir án þess þó að skapa sér færi. Á 44. mínútu brást þó vörn Árborgar þegar Þróttarar tóku langt innkast og einn gestanna átti góðan skalla af stuttu færi. Einar Guðni Guðjónsson var hins vegar á tánum í rammanum hjá Árborg og varði meistaralega.

Hann kom hins vegar engum vörnum við í næstu sókn Þróttara þegar þeir léku í gegnum vörn Árborgar og jöfnuðu metin með góðu skoti úr vítateignum. Örfáum sekúndum síðar flautaði dómarinn til leikhlés.

Leikurinn var í jafnvægi framan af síðari hálfleik þar sem baráttan á miðjunni var allsráðandi. Á 57. mínútu fannst hins vegar Guðmundi Sigurðssyni nóg komið og negldi hann knettinum í stöngina og inn með góðu skoti fyrir utan vítateig. Þetta var fyrsta deildarmark Guðmundar fyrir Árborg í nítján leikjum en hann var iðinn við kolann í vormótunum.

Árborgarar voru nær því að bæta við þriðja markinu en á 68. mínútu átti Sveinn Fannar Brynjarsson gott skot úr aukaspyrnu en boltinn fór í stöngina og efitr mikinn usla í vítateig Þróttar björguðu gestirnir í horn. Fimm mínútum síðar átti Logi Geir Þorláksson skalla að marki Þróttar úr góðri stöðu eftir þunga sókn. Hann náði hins vegar ekki að stanga boltann af afli og markvörður Þróttar varði auðveldlega.

Síðustu fimmtán mínútur leiksins bökkuðu Árborgarar mikið og Þróttarar lágu í sókn. Hver sóknaraldan af annarri skall á vörn Árborgar sem stóð áhlaupið af sér. Þróttarar fengu lítið annað en hálffæri utan einu sinni að Einar Guðni varði fast skot að marki úr þröngri stöðu hægra megin í vítateignum.

Árborgarar héldu varnarskipulaginu samviskusamlega á lokamínútunum og léttirinn og fögnuðurinn í þeirra röðum var mikill þegar lokaflautan gall og fyrstu stig sumarsins voru í húsi.

Árborg fór upp um tvö sæti með sigrinum og er nú í 6. sæti A-riðils með þrjú stig.

Fyrri greinNý sýning í Listasafni Árnesinga
Næsta greinSigurmark gestanna í uppbótartíma