Loksins sigur hjá Ægi

Ægir vann sinn fyrsta sigur í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tók á móti botnliði KF á Þorlákshafnarvelli.

Jannik Eckenrode skoraði eina mark leiksins, stöngin inn úr aukaspyrnu á 53. mínútu og þar við sat. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en sóknir gestanna þyngdust undir lokin en Ægismenn áttu einnig sín færi og héldu út í vörninni til loka.

Með sigrinum eru Ægismenn komnir með 5 stig en sitja ennþá í fallsæti, 11. sætinu og mæta næst Völsungi á heimavelli á laugardaginn. Sá leikur er ekki síður mikilvægur, en Völsungar eru með 8 stig í 10. sæti.