Loksins!

Jada Guinn var framlagshæst hjá Hamri/Þór með 24 stig og 4 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Loksins gat stuðningsfólk og liðsmenn Hamars/Þórs glaðst yfir sigri því liðið vann sinn fyrsta leik í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í vetur þegar Keflavík kom í heimsókn í Hveragerði í kvöld í elleftu umferð Íslandsmótsins.

Keflavík er í toppbaráttu deildarinnar en Hamar á botninum og því þurftu þær sunnlensku að sýna sínar bestu hliðar til að ná árangri í kvöld. Það gerðu þær líka, spilamennskan var til fyrirmyndar og Hamar/Þór hafði undirtökin stærstan hluta leiksins.

Staðan í hálfleik var 37-33 en spenna hljóp í leikinn í 4. leikhluta og Keflavík jafnaði 68-68 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Hamar/Þór sýndi hins vegar styrk sinn á lokakaflanum og vann sanngjarnan sigur, 75-71.

Jada Guinn var framlagshæst hjá Hamri/Þór með 24 stig og 4 stoðsendingar.

Eftir leikinn er Hamar/Þór enn í botnsæti deildarinnar með 2 stig en Keflavík er í 5. sæti með 14 stig.

Hamar/Þór-Keflavík 75-71 (17-11, 20-22, 23-23, 15-15)
Tölfræði Hamars/Þórs: Jada Guinn 24/9 fráköst, Mariana Duran 14/15 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 14, Ellen Iversen 11/12 fráköst, Jovana Markovic 8/7 fráköst, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2.

Fyrri greinHlaupið líklega úr vestari katlinum
Næsta greinFæranlegar skólastofur fluttar á Eyrarbakka