Lokaspretturinn dugði ekki

Selfyssingar töpuðu 29-32 gegn Víkingi í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi.

Víkingar náðu snemma góðu forskoti og leiddu með fimm marka forskoti í hálfleik 14-19. Munurinn var orðinn sjö mörk, 22-29 þegar Selfyssingar tóku loksins við sér.

Selfoss náði þá 7-3 leikkafla og minnkaði muninn í þrjú mörk en sá sprettur kom of seint og Víkingar fögnuðu sigri.

Hörður Bjarnarson skoraði 8 mörk, Atli Kristinsson 7, Eyþór Lárusson og Gunnar Ingi Jónsson 4, Andri Már Sveinsson og Matthías Halldórsson 2 og Guðni Ingvarsson 1.

Sverrir Andrésson varði tíu skot, þar af átta á síðustu tíu mínútunum. Helgi Hlynsson varði fimm skot.