Lokaáhlaupið dugði Selfyssingum ekki

FH sigraði Selfoss 37-33 og jafnaði metin í einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í dag.

FH-ingar byrjuðu betur í leiknum og náðu fljótlega þriggja marka forskoti. FH hafði góð tök á leiknum í fyrri hálfleik en undir lokin fóru Selfyssingar að gera sig gildandi og staðan var 17-15 í leikhléinu.

Heimamenn byrjuðu miklu betur í seinni hálfleiknum, með 4-1, áhlaupi þar sem staðan var orðin 21-16. Forskot FH varð mest fimm mörk í seinni hálfleik en Selfyssingar áttu góðan endasprett eins og oft áður. Spretturinn dugði þó ekki til. Selfoss minnkaði muninn í 32-30 þegar þrjár mínútur voru eftir en FH-ingar fengu markvörslu á lokakaflanum sem skilaði þeim öruggum sigri, 37-33.

Einar Sverrisson átti annan frábæran leik fyrir Selfyssinga en hann var markahæstur með 11/2 mörk og frábær í vörninni. Teitur Örn Einarsson skoraði 8 mörk, Elvar Örn Jónsson 5, Atli Ævar Ingólfsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson og Hergeir Grímsson voru báðir með 2 og Haukur Þrastarson 1.

Markvarslan var engin hjá Selfyssingum í dag en Sölvi Ólafsson varði 3 skot og var með 15% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 2 skot og var með 8% markvörslu. Á meðan vörðu markverðir FH samtals 18 skot.

Liðin mætast næst á Selfossi þann 1. maí kl. 14:00.

Fyrri greinSebastian í heiðurshöll handboltans á Selfossi
Næsta greinÞrír Hrunamenn í U15 ára landsliðinu