Logi tekur við Selfoss

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er Logi Ólafsson næsti þjálfari karlaliðs Selfoss í knattspyrnu.

Loga þarf ekki að kynna fyrir áhugamönnum um íslenska knattspyrnu. Hann hefur þjálfað víða á síðustu áratugum og til að mynda hefur hann stýrt bæði karla og kvennalandsliðum Íslands.

Logi gerði Víking að Íslandsmeisturum árið 1991 og endurtók leikinn á Akranesi árið 1995. Hann stýrði FH til sigurs í 1. deild árið 2000 en ári síðar varð hann aðstoðarþjálfari hjá Lilleström í Noregi. Árið 2007 tók Logi við liði KR og gerði þá að bikarmeisturum árið 2008. Hann hætti síðan störfum hjá KR í júlí í sumar eftir dapurt gengi framan af Íslandsmótinu.

Logi býr á Arnarhóli í Gaulverjabæjarhreppi og hefur samhliða þjálfun síðustu ár verið íþróttakennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Logi verður kynntur fyrir leikmönnum Selfoss núna í hádeginu en kl. 13 verður blaðamannafundur þar sem ráðning hans verður staðfest.

Fyrri greinTil greina kemur að veita afslátt á gjöldum
Næsta grein„Hestarnir þegja en fótboltamennirnir ekki“