„Ljúft að vera komin aftur“

Dagný Brynjarsdóttir skoraði þriðja mark Íslands í 4-1 sigri á Ungverjum á Laugardalsvellinum í kvöld. Leikurinn var fyrsti leikur Íslands í undankeppni EM 2021.

„Það er langt síðan ég spilaði síðast á Laugardalsvelli og bara ljúft að vera komin aftur og byrja þessa undankeppni á þremur stigum,“ sagði Dagný í samtali við fotbolti.net eftir leik.

„Við gerðum þetta aðeins erfitt í fyrri hálfleik en við fórum vel yfir okkar mál í hálfleik og komum sterkar út í seinni hálfleik og kláruðum leikinn sem er mikilvægt en við kannski hleyptum þeim óþarflega mikið inn í leikinn,“ sagði Dagný ennfremur.

Elín Metta Jensen kom Íslandi yfir á 9. mínútu en Ungverjarnir jöfnuðu undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-1 í leikhléi. Hlín Eiríksdóttir skoraði annað mark Íslands á 59. mínútu og fimm mínútum síðar bætti Dagný við þriðja markinu. Elín Metta tryggði Íslandi svo 4-1 sigur með marki á lokamínútu leiksins.

Ísland mætir Slóvakíu á Laugardalsvellinum næstkomandi mánudagskvöld í öðrum leik undankeppninnar. 

Fyrri greinÖkklabrotnaði ofan við Skógafoss
Næsta greinÍbúðaskortur má ekki aftra atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni