„Ljótt en við tökum það“

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss lyfti sér upp í 4. sæti Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu með sætum sigri á KR á Selfossvelli í kvöld, 1-0.

„Við vor­um ekki að spila vel og vor­um þung­ar og þreytt­ar. Þetta var ljótt, en við tök­um það og erum mjög sátt­ar við þessi þrjú stig. Liðið hjálpaðist allt að við þetta verk­efni. Þetta var bara vinnu­sig­ur,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var algjörlega tíðindalaus fyrstu tuttugu mínúturnar en þá fengu Selfyssingar aukaspyrnu á ákjósanlegum stað. Anna María Friðgeirsdóttir lyfti boltanum inn á teiginn þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir renndi sér á boltann á fjærstönginni og skoraði.

KR sótti í sig veðrið eftir mark Selfoss, án þess þó að fá teljandi færi. Heimakonur voru nær því að bæta við marki en á 43. mínútu tók Hólmfríður góðan snúning í teignum og náði hörkuskoti sem Birna Kristjánsdóttir varði glæsilega. Frákastið fór á Selfyssinga og boltinn barst til Grace Rapp sem hamraði hann yfir markið af stuttu færi.

Staðan var því 1-0 í hálfleik og á 53. mínútu var Þóra Jónsdóttir nálægt því að tvöfalda forystu Selfoss þegar hún átti þrumuskot í þverslána. Þetta var nánast það síðasta sem sást til Selfoss í leiknum því KR stýrði skútunni megnið af seinni hálfleiknum en Selfossvörnin var þétt og gaf aðeins eitt færi á sér. Það var reyndar dauðafæri en Sandra Dögg Bjarnadóttir fékk boltann í góðri stöðu á 75. mínútu og skaut í stöng.

Leikurinn fjaraði út eftir þetta og Selfossliðið fagnaði vel að lokum. Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en liðin í næstu sætum eiga leik til góða á þær vínrauðu.

Fyrri grein„Mikilvægt að vera í þessari starfsemi“
Næsta greinÆgir ætlar í úrslitakeppnina