Litu ekki til baka í seinni hálfleik

Emma Hrönn Hákonardóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór vann góðan sigur á Aþenu/Leikni/UMFK í 1. deild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld, 90-75.

Það gekk fátt upp hjá Hamri-Þór framan af leik og Aþena var skrefinu á undan mest allan fyrri hálfleikinn. Þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum þótti heimakonum nóg komið af slóri og Jenna Mastellone og Emma Hrönn Hákonardóttir sáu um að skora 11 síðustu stigin í 2. leikhluta og breyta stöðunni úr 28-36 í 39-36 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þær sunnlensku litu ekki til baka eftir þetta og héldu forystunni allan seinni hálfleikinn. Munurinn var orðinn tíu stig um miðjan 3. leikhluta, 56-46, og hann jókst ennþá frekar í síðasta fjórðungnum.

Jenna Mastellone var með frábært framlag fyrir Hamar-Þór í kvöld, skoraði 42 stig og tók 5 fráköst. Emma Hrönn var sömuleiðis öflug, með 15 stig og 7 fráköst.

Hamar-Þór hefur nú 8 stig í 5. sæti deildarinnar en Aþena er í 7. sæti með 4 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Jenna Mastellone 42/5 fráköst, Emma Hrönn Hákonardóttir 15/7 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 10, Helga María Janusdóttir 8, Stefanía Ósk Ólafsdottir 6, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 4, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3, Gígja Rut Gautadóttir 2.

Fyrri greinValsmenn slökktu vonarneista Þórs í lokin
Næsta greinElísabet sigraði í Söngkeppni NFSu