Lítill skóli með stórt Skólahreystihjarta

Keppnislið Flóaskóla ásamt stuðningsliði sínu sem setti mikinn svip á kvöldið. Ljósmynd/Skólahreysti

Flóaskóli sigraði í úrslitum Skólahreysti 2022 sem haldin voru í gærkvöldi í Mýrinni í Garðabæ.

Það er óhætt að segja að keppnin hafi verið æsispennandi en Flóaskóli sigraði með 61,5 stig, Hraunvallaskóli í Hafnarfirði varð í öðru sæti með 58 stig og Holtaskóli í Reykjanesbæ endaði í þriðja sæti með 54,5 stig.

Lið Flóaskóla skipa þau Þórunn Ólafsdóttir, Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Viðar Hrafn Victorsson og Auðunn Ingi Davíðsson. Varamenn eru Oddur Olav Davíðsson og Jóhanna Pálmadóttir og þjálfari liðsins er íþróttakennarinn Örvar Rafn Hlíðdal.

Andrúmsloftið í Mýrinni var rafmagnað, öll lið náðu gríðarlega góðum árangri og áhorfendur léku á alls oddi og hvöttu sína skóla af lífs og sálarkröftum. Keppnin var í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Flóaskóli hefur stimplað sig inn sem einn af „stóru“ skólunum í Skólahreystinni. Í fyrra varð skólinn í 3. sæti á úrslitakvöldinu og í undankeppninni setti Erlín Katla Hansdóttir eftirminnilegt Íslandsmet í hreystigreip. „Við erum mjög stolt af ykkur og samgleðjumst. Lítill skóli með stórt Skólahreystihjarta,“ segir í tilkynningu frá Skólahreysti.

Flóaskóli fékk að sigurlaunum 250 þúsund krónur sem renna til nemendafélagsins frá Landsbankanum. Keppendur fengu iPad og varamenn gjafabréf auk þess sem allt keppnisliðið fékk gullmedalíur og glæsilegan eignarbikar.

Sunnulækjarskóli á Selfossi átti einnig lið á úrslitakvöldinu og varð liðið í 10. sæti en tólf skólar komust í úrslit.

Lið Flóaskóla á verðlaunapalli. Ljósmynd/Skólahreysti
Fyrri greinÁrborg fékk styrk vegna móttöku flóttafólks
Næsta greinVill sjá vallarmetið slegið