Lítið vesen fyrir vestan

Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 11 stig og tók 7 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór ferðaðist vestur á Ísafjörð í dag þar sem liðið mætti botnliði Vestra í 1. deild kvenna í körfubolta. Þær sunnlensku unnu sætan sigur, 64-66.

Hamri-Þór gekk illa í upphafi leiks, Vestri komst í 13-4 og staðan var 13-6 að loknum 1. leikhluta. Þá tóku gestirnir við sér og léku vel í vörn og sókn í 2. leikhluta. Hamar-Þór skoraði fyrstu ellefu stigin í leikhlutanum og komst í kjölfarið fimm stigum yfir, 15-20. Munurinn jókst enn frekar fyrir hálfleik og í leikhléi var staðan 25-35.

Seinni hálfleikurinn var jafn og undir lok 3. leikhluta náði Vestri að minnka muninn í sjö stig, 43-50. Heimakonur létu svo enn frekar finna fyrir sér í 4. leikhluta og þær jöfnuðu 58-58 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Hamar-Þór var skrefinu á undan á lokamínútunum og síðasta þriggja stiga tilraun Vestra geigaði, þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Astaja Tyghter var nálægt þrefaldri tvennu hjá Hamri-Þór en hún skoraði 14 stig, tók 11 fráköst og sendi 8 stoðsendingar. Julia Demirer lék sömuleiðis vel og var sterk undir körfunni á báðum endum vallarins.

Hamar-Þór er nú í 7. sæti deildarinnar með 12 stig en Vestri er áfram á botninum með 4 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 14/11 fráköst/8 stoðsendingar, Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 13, Hrafnhildur Magnúsdóttir 11/7 fráköst, Julia Demirer 9/11 fráköst, Helga María Janusdóttir 6, Gígja Rut Gautadóttir 5, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 5/5 fráköst, Margrét Lilja Thorsteinson 3.

Fyrri greinÍþróttamaður ársins setti upp sýningu
Næsta greinRauði baróninn tekur við Stokkseyri