Lilja í fjórða sæti í Glasgow

Lilja Björg Jónsdóttir frá Götu í Hrunamannahreppi varð í 4. sæti í -75 kg flokki í keppninni Sterkasta kona heims sem fram fór í Glasgow í Skotlandi í gær.

Mótið var gríðarlega sterkt en þar mættu meðal annars keppendur frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandseyjum, Úkraínu og Skandinavíu. Þrettán keppendur voru í -75 kg flokknum.

Keppt var í fimm greinum og sigraði Lilja í einni þeirra, duckwalk, þar sem gengið er með 100 kg lóð.

Í samtali við sunnlenska.is sagðist Lilja sæl og ánægð eftir mjög góðan keppnisdag. „Það gekk allt upp hjá mér, ég stefndi á að vera meðal fimm efstu og það gekk eftir þannig að ég er mjög ánægð með þetta. Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum sem hafa stutt við bakið á mér æðislega vel fyrir,“ sagði Lilja, sem býr á Höfn í Hornafirði og æfir þar í Sporthöllinni ásamt manni sínum, Guðna Þór Valþórssyni.

Þetta er annað mótið sem Lilja keppir á í Skotlandi á þessu ári en í júní varð hún í 3. sæti í keppninni Sterkasta kona Bretlands. Næst á dagskrá hjá henni er keppnin um Sterkustu konu Íslands sem fram fer í nóvember.

Annar Íslendingur tók þátt í mótinu, Rakel Lilja Halldórsdóttir frá Hellissandi, og varð hún í 8. sæti í -75 kg flokki.

Fyrri grein„Auðvitað erum við svekkt!“
Næsta greinHeiðraði minningu Bobby Fischer