Ægismenn unnu lífsnauðsynlegan sigur í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag þegar Dalvík/Reynir kom í heimsókn á Þorlákshafnarvöll.
Daníel Karl Þrastarson kom Ægismönnum yfir á 12. mínútu en annars gekk þeim gulu illa að nýta sín færi í fyrri hálfleiknum. Dalvík/Reynir jafnaði 1-1 á 20. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var í járnum en Ægismönnum tókst að knýja fram sigurmark af vítapunktinum eftir að brotið var á Jordan Adeyemo. Bjarki Rúnar Jónínuson fór á punktinn og skoraði af öryggi og tryggði Ægi 2-1 sigur.
Fyrir lokaumferðina er Ægir í 2. sæti með 41 stig, eins og Grótta sem er í 3. sæti. Þróttur Vogum er í toppsætinu með 42 stig en Þróttur og Grótta mætast innbyrðis í lokaumferðinni á meðan Ægir leikur í Garðinum gegn Víði.
