Lífland og Meistaradeild æskunnar undirrita samstarfssamning

Arnar Þórisson, forstjóri Líflands og Jóna Dís Bragadóttir, framkvæmdastjóri Meistaradeildarinnar undirrita samstarfssamninginn. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta mótið í Meistaradeild Líflands og æskunnar fór fram síðastliðinn sunnudag á Fákssvæðinu í Víðidal og var keppt í fjórgangi. Í ár eru liðin ellefu, hvert með fjórum knöpum og alls eru því keppendurnir á aldrinum 13-17 ára 44 talsins á þeim mótum sem framundan eru.

Í A-úrslitunum varð nokkuð um vendingar, því upp úr fimmta til sjöunda sæti inn í úrslitin kom Eik Elvarsdóttir á Heiluni frá Holtabrún, sá og sigraði með einkunnina 7,10. Önnur varð Svandís Aitken á Fjöður með 7,07 og þriðji Ragnar Snær á Ása með 7,03. Ansi mjótt á mununum þarna og æsispennandi allt til loka. Stigahæsta liðið í fjórganginum var lið Kambs með 73,5 stig.

Lífland hefur stutt Meistaradeild æskunnar um margra ára skeið og er aðal bakhjarl deildarinnar. Síðastliðinn laugardag undirrituðu Arnar Þórisson forstjóri Líflands og Jóna Dís Bragadóttir framkvæmdastjóri meistaradeild æskunnar samstarfssamning í verslun Líflands á Lynghálsi í Reykjavík. Samhliða undirrituninni voru knapar í liðunum kynntir.

Í tilkynningu frá Líflandi segir að það sé fulltrúum fyrirtækisins afar kært að styðja við barna- og unglingastarf innan hestaíþróttarinnar. „Deildin er vettvangur til að skapa ungum keppendum grundvöll til að þróast sem keppnisfólk. Það verður óhætt að segja að Meistaradeild Líflands og æskunnar stefnir í að verða ótrúlega skemmtileg og spennandi í ár. Deildin lengir keppnistímabilið og gerir kröfur til þjálfunar, hestakosts og reiðmennsku, um leið og umgjörðin er glæsileg og hæfir tilefninu,“ segir í tilkynningunni.

Knaparnir sem taka þátt í Meistaradeild æskunnar í ár. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSet ehf sett í söluferli
Næsta greinVilja að náttúran fái sterkara umboð í samfélaginu