„Lifðum hættulegu lífi“

Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, var ánægður með góða byrjun sinna manna í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég held að við höfum sýnt það í dag að við erum með ágætt lið og vel samkeppnishæfir við það sem er að gerast í þessari deild. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að byrja vel og ég held að útfærslan á leiknum hafi verið góð bæði í vörn og sókn,“ sagði Logi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„ÍBV var ekki að skapa mikið af færum þó að þeir hafi verið mikið með boltann í seinni hálfleik. Við reiknuðum með því að þeir myndu vera mikið með boltann og lögðum upp með að geta beitt skyndisóknum og skapað okkur færi sem okkur því miður tókst ekki að skora úr, þrátt fyrir að vera einir á móti markverði tvisvar eða þrisvar.“

Selfyssingar lágu mjög aftarlega á köflum í seinni hálfleik en þrátt fyrir það þá var Logi rólegur, allt þar til Eyjamenn minnkuðu muninn.

„Stundum ertu rekinn niður í skotgrafirnar þegar mótherjarnir halda boltanum vel eins og þeir gera. Þó að það séu meiðsli í þeirra röðum þá eru þeim með mjög vel spilandi lið. Við skulum átta okkur á því að þetta lið er búið að vera í toppbaráttunni á undanförnum árum og það verða ekki miklar breytingar hjá þeim þó að það séu einhver meiðsli.

En það er rétt að það býður stundum hættunni heim að liggja aftarlega, sérstaklega þegar staðan er orðin 2-1, þá var aðeins farið að fara um mig. Þeir fengu mark uppúr engu, fyrirgjöf hrekkur upp í hendina á varnarmanni, það er ekki einu sinni hægt að skrifa það sem færi. Þannig að jú, við lifðum kannski svolítið hættulegu lífi á þeim tíma,“ segir Logi léttur í bragði.

Næsti leikur Selfoss er gegn Val á útivelli á fimmtudagskvöld. „Við förum kinnroðalaust inn í þann leik. Það er sama hverjum við mætum við reynum alltaf að láta vaða í hvern leik og reynum að vinna og það verður ekkert öðruvísi á móti Val.“

Fyrri greinFrábær vinnusigur hjá nýliðum Selfoss
Næsta grein„Ég var bara frekastur“