Lifðu hættulegu lífi undir lokin

Þorlákshafnar-Þórsarar eru aftur komnir í toppsæti Domino's-deildar karla í körfubolta eftir 83-84 sigur á útivelli gegn Njarðvík í kvöld.

Þór hafði góð tök á leiknum allt fram í síðasta leikhluta þegar Njarðvíkingar svöruðu hressilega fyrir sig. Staðan var 36-49 í hálfleik og þegar síðasti fjórðungurinn hófst leiddu Þórsarar, 52-66.

Njarðvík minnkaði forskot Þórs jafnt og þétt í síðasta leikhlutanum og jöfnuðu þegar hálf mínúta var eftir, 83-83. Ben Smith fór á vítalínuna fyrir Þórsara í kjölfarið og tryggði sigurinn þegar fjórar sekúndur voru eftir með því að setja niður annað vítið en síðasta skot Njarðvíkinga í leiknum geigaði.

Ben Smith var besti maður vallarins með 22 stig, 7 fráköst og 12 stoðsendingar. David Jackson skoraði 21 stig og tók 11 fráköst, Darri Hilmarsson átti fínan leik með 16 stig, Guðmundur Jónsson skoraði 13 og meiddur Darrell Flake 11. Grétar Ingi Erlendsson lék ekki með Þórsurum vegna meiðsla.

Þór er á toppnum með 18 stig eins og Grindavík, Snæfell og Stjarnan. Næsti leikur Þórs er á fimmtudag þegar liðið tekur á móti ÍR.

Fyrri greinHugvekja um illa meðferð dýra og umgengni á sveitabæjum
Næsta greinNúgildandi samningstími verði styttur