Lið Húsasmiðjunnar sigraði parafimina

Lið Húsasmiðjunnar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta keppni í Suðurlandsdeildinni í hestaíþróttum fór fram í Rangárhöllinni, Hellu, í gærkvöldi.

Alls voru 56 knapar voru skráðir til leiks og öttu þeir kappi í 28 pörum. Hvert par skipað einum áhugamanna og einum atvinnumanni.

Í tilkynningu frá Suðurlandsdeildinni segir að sjaldan eða aldrei hefur keppni í parafimi verið jafn sterk og hún var í gærkvöldi. Atriðin vel undirbúin og sýningarnar frábærar.

Þau Ólafur Þórisson og Sarah M. Nielsen leiddu eftir forkeppni og áttu svo aftur frábæra sýningu í úrslitum sem tryggðu þeim sigurinn. Liðsfélagar þeirra í Húsasmiðjunni þau Davíð Jónsson og Katrín Sigurðardóttir áttu einnig virkilega góða sýningu sem tryggði þeim sjötta sæti.

Eftir fyrstu keppni er því staðan í liðakeppninni þannig að Húsasmiðjan leiðir með 102 stig, Byko er í 2. sæti með 98 stig og Smiðjan brugghús í 3. sæti með 89 stig. Fjórtán lið taka þátt í keppninni í vetur.

Hægt er að sjá Parafimi Suðurlandsdeildarinnar á Alendis TV.

Sigurparið, Sarah á Sóldísi frá Miðkoti og Ólafur á Aski frá Miðkoti. Ljósmynd/Aðsend
Úrslitapörin. Ljósmynd/Aðsend

 

Fyrri greinFjölbreytt úrval skotvopna til sýnis
Næsta grein2,5 milljónir í sekt fyrir ítrekuð umferðarlagabrot