Lið Byko sigrar Suðurlandsdeildina 2021

Lið Byko sigraði í Suðurlandsdeildinni á síðasta keppnistímabili. Ljósmynd/Aðsend

Eftir algjörlega magnaðan vetur þá lauk fimmta tímabili Suðurlandsdeildarinnar í hestaíþróttum nú í kvöld þar sem keppt var í tölti og skeiði.

Það var lið Byko sem hlaut flest stig eftir veturinn en sigraði með 371 stig, í öðru sæti var lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns með 321 stig og Kvistir í því þriðja með 292 stig. Lið Smiðjunnar Brugghús og Húsasmiðjunnar komu þar rétt á eftir.

Í kvöld var keppt í skeiði og tölti. Það var lið Húsasmiðjunnar sem sigraði liðakeppni skeiðsins enda lentu liðsmenn þeirra í 1. sæti í flokki atvinnumanna og 3. sæti í flokki áhugamanna. Í flokki áhugamanna var það Aasa Ljungberg á Rangá frá Torfunesi sem fór hraðast á tímanum 8,21 sek, Aasa keppir fyrir lið Vöðla/Snilldarverks/Sumarliðabæjar. Í flokki áhugamanna var það Sigursteinn Sumarliðason á Krókus frá Dalbæ sem fór hraðast á tímanum 7,76 sek, Sigursteinn keppir fyrir lið Húsasmiðjunnar.

Í tölti voru mörg gríðarlega sterk hross skráð til leiks og úrslitin eftir því. Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sigraði liðakeppni tölts en liðsmenn þeirra lentu í 2. og 4. sæti í flokki atvinnumanna og 9. og 15. sæti í flokki áhugamanna. Í flokki áhugamanna var það Elín Hrönn Sigurðardóttir á Dáð frá Feti sem sigraði með einkunnina 7,17 en Elín keppir fyrir lið Fet/Þverholts. Í flokki atvinnumanna var það Lea Schell á Silfá frá Húsatóftum 2a sem stóð efst með einkunnina 7,94 en Lea keppir fyrir lið Krappa.

Öll nánari úrslit má nálgast í Kappa appinu (LH Kappi).

Fyrri greinHamar áfram – Selfoss í oddaleik
Næsta greinAllt í járnum hjá ungmennaliðinu