Lið Byko sigraði í Suðurlandsdeildinni

Lið Byko tekur við verðlaunum fyrir stigahæsta lið tímabilsins. F.v. Brynja Amble liðsstjóri, Elín Holst, Sævar Örn Sigurvinsson, Jón Björnsson, Herdís Rútsdóttir, Árni Sigfús Birgisson, Bergur Jónsson aðstoðar liðsstjóri, Gunnar Bjarki Rúnarsson verslunarstjóri Byko á Selfossi og Ásdís Hrönn Hilmarsdóttir deildarstjóri Byko á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Í gærkvöldi fór fram lokakvöld Suðurlandsdeildarinnar í hestaíþróttum. Líkt og annað síðustu mánuði þá hafði COVID töluverð áhrif á deildina sem varð til þess að henni lauk utandyra 23. júní í stað innanhúss þann 17. mars sl.

Deildin hefur verið virkilega skemmtileg og jöfn í vetur líkt og síðustu tímabil. Það var lið Byko sem stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa leitt liðakeppnina frá fyrstu keppni sem er glæsilegur árangur. Byko fékk 300,5 stig en fast á hæla Byko kom svo lið Húsasmiðjunnar sem lenti í öðru sæti með 277 stig og á eftir þeim lið Krappa með 250,5 stig.

Lið Fákasels og Ásmúla urðu neðst í deildinni og detta út eftir þetta tímabil.

Önnur úrslit kvöldsins voru þau að lið Vöðla/Snilldarverks/Sumarliðabæja hlaut stigaplattann í skeiði og lið Húsasmiðjunnar hlaut stigaplattann fyrir töltið.

Í tölti áhugamanna sigraði Elín Magnea Björnsdóttir úr liði Heklu hnakka á hryssunni Melódíu frá Hjarðarholti með einkunnina 7,22 og í tölti atvinnumanna sigraði Sigurður Sigurðarson úr liði Krappa á hryssunni Rauðu-List frá Þjóðólfshaga með einkunnina 7,72.

Í skeiði áhugamanna sigraði Eva Dögg Pálsdóttir úr liði Ásmúla á hestinum Jarli frá Kílhrauni, Eva Dögg og Jarl fóru á tímanum 7,81 sek. Í skeiði atvinnumanna sigraði Guðmundur Björgvinsson úr liði Vöðla/Snilldarverks/Sumarliðabæjar á hryssunni Stolt frá Laugavöllum á tímanum 7,67 sek.

Fyrri greinVeiðisumarið hafið í Ölfusá
Næsta greinGuðrún ráðin aðstoðarskólastjóri