Lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sigraði í Suðurlandsdeildinni

Sigurlið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns. Ljósmynd/Suðurlandsdeildin

Eftir frábæran keppnisvetur var það lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sem sigraði í Suðurlandsdeildinni 2022 en úrslitin réðust ekki fyrr en að lokinni töltkeppni á Rangárbökkum í gærkvöldi.

Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún hlaut 410,5 stig í heildarstigakeppni vetrarins, Byko varð í 2. sæti með 383,5 stig og Krappi í 3. sæti með 317,5 stig, hálfu stigi á undan Smiðjunni Brugghúsi og þar rétt á eftir í 5. sæti var lið Nonnenmacher.

Gærkvöldið var magnað á Rangárbökkum en keppt var í skeiði og tölti og fór keppnin fram utandyra í frábæru veðri.

Hafþór Hreiðar Birgisson á Jarli frá Þóroddsstöðum sigraði í skeiði áhugamanna á tímanum 8,25 sek en Hafþór og Jarl keppa fyrir Árbæjarhjáleigu/Hjarðartún. Í flokki atvinnumanna sigruðu Helga Una Björnsdóttir og Jarl frá Kílhrauni á tímanum 7,95 en þau keppa fyrir lið Nonnenmacher.

Í töltkeppninni voru magnaðar sýningar og má segja að Leó Geir Arnarsson á Matthildi frá Reykjavík hafi átt sýningu kvöldsins en hann sigraði flokk atvinnumanna með hvorki meira né minna en 8,61 í aðaleinkunn en hann keppir fyrir lið Krappa. Í flokki áhugamanna var það Katrín Sigurðardóttir á hryssunni Ólínu frá Skeiðvöllum sem keppir fyrir lið Húsasmiðjunnar sem stóð uppi sem sigurvegar með einkunnina 7,10. Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún sigraði liðakeppnina í töltinu en knapar liðsins urðu í 3. og 4. sæti, bæði í flokki atvinnumanna og áhugamanna.

Fyrri greinValsmenn mættu með sópinn á lofti
Næsta greinOpinn fundur Íbúalistans með Oddnýju