Liam áfram með ÍBU

Matthías Bjarnason og Liam Killa handsala samninginn. Ljósmynd/ÍBU

Liam Killa mun áfram þjálfa meistaraflokk karla í knattspyrnu hjá Íþróttafélagi Uppsveita á næsta keppnistímabili. Liam skrifaði í kvöld undir samning út árið 2023.

Liam tók við liðinu síðastliðinn vetur og árangur liðsins í sumar var sá langbesti í sögu félagins.

„Með hann í brúnni náðum við að bæta fjölmörg met, sækja helling af sigrum og spila skemmtilegan fótbolta. Bæði leikmenn og stjórnarmenn voru einhuga um að láta hann stýra skútunni á næsta tímabili og var hann ekki lengi að samþykkja, enda fátt betra en að stýra æfingum og keppnisleikjum í Uppsveitum Árnessýslu,“ segir í tilkynningu frá ÍBU.

Liam er strax byrjaður að undirbúa liðið fyrir næsta tímabil í nýrri og bráðskemmtilegri tíu liða 4. deild og samkvæmt fréttum frá ÍBU verður penninn áfram á lofti næstu daga og fleiri undirskriftir handan við hornið.

Fyrri greinStefna á gjaldtöku á langtímabílastæðum
Næsta greinLangþráð strengjamót á Selfossi um helgina