Lið FSu/Hrunamanna fékk eldskírnina

Lið FSu/Hrunamanna fékk eldskírnina í 1. deild kvenna í körfubolta í dag þegar liðið mætti Stjörnunni á heimavelli í Iðu. Lokatölur urðu 41-63, gestunum í vil.

Einhver skrekkur var í heimakonum í fyrri hálfleik en þetta var fyrsti deildarleikur liðsins og í fyrsta sinn sem FSu teflir fram kvennaliði. Saga kvennakörfunnar á dýpri rætur í Hrunamannahreppi en ungmennafélagið hefur alið af sér marga góða leikmenn í gegnum tíðina.

Ungu liði FSu/Hrunamanna var hent út í djúpu laugina strax í fyrsta leik því Stjörnunni er spáð góðu gengi í 1. deildinni í vetur eftir að hafa farið í umspil um sæti í efstu deild í fyrravetur.

Það fór líka svo að Stjarnan hafði mikla yfirburði í fyrstu tveimur leikhlutunum þar sem þær fengu að leika lausum hala í sóknarleiknum og heimaliðið var að hitta illa. Staðan var 14-40 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var mun betri hjá FSu/Hrunamönnum, þær komu ákveðnar til leiks í 3. leikhluta, unnu leikhlutann 18-9, og minnkuðu forskot gestanna niður í 32-49. Þar munaði miklu um að varnarleikur liðsins stórlagaðist og áttu þær fína spretti í sókninni inn á milli.

Forskot Stjörnunnar var orðið of mikið í fyrri hálfleik til þess að heimaliðið næði að brúa bilið en að lokum skildu 22 stig liðin að.

Jasmine Alston var stigahæst í liði FSu/Hrunamanna með 13 stig, Elma Jóhannsdóttir skoraði 7, Rakel Lind Úlfhéðinsdóttir 6 og Hafdís Ellertsdóttir 5.

Fyrri greinKattasamsæri til styrktar Kattholti
Næsta greinEkkert gekk í seinni hálfleik