Lið HSK í 2. sæti

Fjögur lið tóku þátt í ringókeppni sem haldin var í Borgarnesi síðastliðinn sunnudag. Lið HSK varð í 2. sæti á mótinu.

Ringó minnir á blak, en íþróttin er spiluð á blakvelli með blakneti en í stað bolta eru tveir gúmmíhringir. Fjórir leikmenn eru inná í hvoru liði og leikurinn gengur út á það að kasta og grípa.

Meðal annars er keppt í ringó á Landsmóti 50+ og nýtur íþróttin mikilla vinsælda þar. Mótið um helgina var liður í undirbúningi fyrir 50+ mótið sem haldið verður í Hveragerði í sumar, og skemmtu keppendur sér vel.

Lið HSK skipa hjónin Ásta Laufey Sigurðardóttir og Ólafur Elí Magnússon á Hvolsvelli og bræðurnir Markús Ívarsson og Jón M. Ívarsson frá Vorsabæjarhóli.

Lið UMSB 1 sigraði á mótinu í Borgarnesi, HSK varð í 2. sæti, UMSB 2 í 3. sæti og lið Glóðarinnar frá Kópavogi í 4. sæti.