Léttleikinn í fyrirrúmi á Kastþraut Óla Guðmunds

Keppendur í Kastþraut Óla Guðmunds 2023. Ljósmynd/Aðsend

Árleg Kastþraut Óla Guðmunds fór fram við frekar erfiðar aðstæður á frjálsíþróttavellinum á Selfossi síðastliðinn föstudag. Léttleikinn var í fyrirrúmi að venju en á mótinu er keppt í sleggjukasti, kringlukasti, kúluvarpi, spjótkasti og lóðkasti.

Ágæt þátttaka var í þrautinni. Í karlaflokki sigraði Guðni Valur Guðnason, ÍR, HM fari í kringlukasti, með 3.933 stig. Annar með tæp 3.100 stig varð Örn Davíðsson, Umf. Selfoss og Jón Bjarni Bragason, Breiðablik, í 3. sæti.

Í kvennaflokki var skemmtileg keppni sem endaði með sigri FH-ingsins Heru Cristensen sem fékk 2.588 stig, Hildur Helga Einarsdóttir, Umf. Selfoss, varð í 2. sæti með rúmlega 2.200 stig og Álfrún Diljá Kristínardóttir, Umf. Selfoss, í því þriðja.

Ágústa setti Íslandsmet og fjögur HSK-met
Ágústa Tryggvadóttir, Umf. Selfoss, varð svo í fjórða sæti, aðeins sjö stigum á eftir Álfrúnu en þess má geta að Ágústa setti fjögur HSK met í sínum flokki 40-44 ára. Hún tvíbætti metið í kúluvarpi er hún varpaði 9,58 m og svo 9,88 m. Þá bætti hún HSK metið í spjótkasti kastaði 26,21 m og endaði svo á setja bæði HSK og Íslandsmet í lóðkasti er hún kastaði 9,75 m. Gamla metið átti liðsfélagi hennar, Þuríður Ingvarsdóttir, 9,31 m en þær kasta 8 kg þungu lóði.

Þetta var endapunktur á sumarkeppnistímabilinu og í tilkynningu færir Ólafur Guðmundsson starfsmönnum og styrktaraðilum kærar þakkir fyrir þeirra þátt svo halda megi Kastþrautina ár hvert.

Efstu keppendur í kvennaflokki ásamt Óla Guðmunds. Ljósmynd/Aðsend
Efstu keppendur í karlaflokki ásamt Óla Guðmunds. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinKolbrún ráðin til Ölfus Cluster
Næsta greinHaustsýning – 70 sögur á safni