Létt hjá Hamri í Sandgerði

Hamar átti ekki í vandræðum með botnlið Reynis í 1. deild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Sandgerði í kvöld. Lokatölur voru 64-90.

Jerry Hollis skoraði sex fyrstu stig leiksins og Hamar komst í 5-14 í upphafi leiks en staðan að loknum 1. leikhluta var 18-22.

Annar leikhlutinn var kaflaskiptur, Reynir byrjaði á góðu áhlaupi og komst yfir, 26-24, en þá svaraði Hamar með sex stigum í röð. Hvergerðingar skoruðu síðan fimm síðustu stigin í fyrri hálfleik og staðan var 37-44 í hálfleik.

Þriðji leikhlutinn var í járnum en Hamar afgreiddi leikinn endanlega í síðasta fjórðungnum. Hvergerðingar byrjuðu 4. leikhluta á 16-3 áhlaupi og kláruðu leikinn en munurinn jókst aftur hratt á síðustu tveimur mínútunum og lokatölur voru 64-90.

Jerry Lewis Hollis var bestur í liði Hamars með 18 stig og 14 fráköst og nýjasti liðsmaður Hamars, Þorsteinn Már Ragnarsson frá Þorlákshöfn, skoraði 12 stig, Örn Sigurðarson og Halldór Gunnar Jónsson 11, Hjalti Valur Þorsteinsson 9, Bjarni Rúnar Lárusson 8, Ragnar Nathanaelsson 7 og Mikael Rúnar Kristjánsson 7, Bjartmar Halldórsson 5 og Stefán Halldórsson 2.